31.3.2008 | 11:56
Ísbrjótur við austur-Grænland
Þetta er ísbrjóturinn Pacific Endeavour sem við vorum sendir til að aðstoða þar sem hann sat fastur í stórís um 100 sjómílur aust-norð-austur af Scoresbysund (Ittooqqormiit). Skipið hafði setið nánast fast á svæði sem var í um 2 km radíus í 3 daga.
Við fórum frá Constable Pynt (Nerleerit Iinaat) á Eurocopter AS350B3 þyrlu Grænlandsflugs ég og flugvallarstjórinn á CNP til aðstoðar og lentum við skipið og tókum upp skipstjórann. Ísbjörgin þar voru á stærð við hús og ekki skrítið að það gengi hægt hjá ísbrjótnum að ryðja sér leið. Það var hægt að lenda á flötum jaka við hlið ísbrjótsins en þar var djúpur snjór svo að ég varð að halda inni smá lyftikraft frá þyrlublöðunum svo þyrlan sykki ekki í snjóinn. Aðstoðarmaðurinn sökk upp að maga þegar hann stökk útur þyrlunni og ég átti alveg eins von að sjá hann hverfa ofan í sprungu sem hefði verið í ísnum en það slapp og hann náði að krafla sér upp á annað skíðið og aðstoða skipstjórann sem hafði komið á snjóþrúgum.
Það tók síðan stutta stunda að finna lænu fyrir skipið til að koma sér af svæðinu en við flugum þó alls með skipstjórann í 6 klst til að finna færa leið á rúmsjó töluvert sunnar. Myndirnar eru teknar þegar við skiluðum skipstjóranum af okkur en stærðarhlutföll sjást á manninum sem stendur við hliðina á skipinu í fyrstu myndinni. Ísbirnir eru ekki óalgengir á þessu svæði.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.