30.3.2008 | 09:08
Pabbi
Hér erum við feðgarnir á góðum degi. Eins og sjá má á höfuðfatinu þá var pabbi hermaður í Svissneska hernum eins og reyndar allir karlkyns ríkisborgarar búsettir í Sviss frá 18 ára til 50 ára. En hann ákvað síðan að verða bóndi og keypti jörð í Hörgárdal 1968 þar sem hann býr enn.
Pabbi var í landgönguliði og reiðhjóla herdeild enda mikill göngugarpur og gekk t.d. hringinn í kringum Ísland þegar hann kom til Íslands fyrst árið 1956.Það þótti mjög merkilegt að sjá útlending á ferð á sveitabæjum í kringum landið á þeim tíma. Ég verð nú líklega aldrei alveg eins afkastamikill en reyni þó að ganga og hjóla eitthvað. Pabbi vann til fjölda verðlauna fyrir reiðhjólakeppnir bæði innan hersins og á meistaramótum í Sviss. Herhjólið var þungur fákur, um 22 kg að þyngd en nú er hægt að fá keppnisreiðhjól með 27 gíra og rétt um 8 kg á þyngd á örmjóum harðpumpuðum dekkjum með 110 Lbs loftþrýsting sem veita nánast ekkert viðnám. En í þá daga voru hjólin þyngri og í keppnum í hernum var hjólað með fullan útbúnað það er 35 kg bakpoka auk heriffils sem var um 15 kg.
Ég ætlaði nú alltaf í Svissneska herinn líka en vildi auðvitað fara í flugherinn en inntökuskilyrði þar eru mjög ströng og aðeins fáir útvaldir sem komast að eftir grunnþjálfun svo að mér þótti öruggara að kosta mína þjáfun sjálfur þar sem ég var ákveðinn að starfa við flug.
Hér er skemmtilegt myndband frá Svissneska flughernum (hækka í hátölurum). Mirage þotan er ekki lengur í notkun (operational) innan flughersins en herþotu floti Sviss samanstendur nú af 33 stk af F-18 Hornet og 54 stk af F-5 Tiger II.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.